Norðurvíkingur '97

Stemme: Bjarklind Einarsdottir

Varnaræfingin Norðurvíkingur '97 hafin

3.500 manns æfa varnir Íslands

Varnaræfing Atlantshafsbandalagsins, Norðurvíkingur '97, fer fram hér á landi um helgina. Ólafur Þ. Stephensen kynnti sér hvernig varnir Íslands eru æfðar.
Varnaræfing Atlantshafsbandalagsins, Norðurvíkingur '97, hófst á fimmtudagskvöld ok stendur fram á þriðjudag. Að sögn Johns. E. Boyington flotaforingja, yfirmanns varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, er gengið út frá því að ímyndað óvinaríki hafi ráðizt á Ísland og sveitir NATO-ríkja komi til varnar. Tilgangur æfingarinnar er að samræma varnir Íslands í lofti, á láði og legi og gefa varaliðsmönnum frá Bandaríkjunum, sem hafa það hlutverk að verja landið ef til átaka kemur, tækifæri til að kynnast staðháttum og aðstæðum hér á landi. Æfðir eru liðs- og birgðaflutningar til landsins, framkvæmd varnaráætlana og varnir hernaðarlega mikilvægra staða.
Þátttakendur í æfingunni eru um 3.500, álíka margir og undanfarin ár, og koma þeir frá fjórum ríkjum Atlantshafsbandalagsins auk Íslands, þ.e. Bandaríkjunum, Kanada, Noregi og Hollandi.
Á meðal þátttakanda eru varnarliðsmenn á Keflavíkurflugvelli, 1.000 manna sveit úr þjóðvarðliði New York-ríkis, liðsmenn úr sveitum bandaríska flughersins og 55 manna sérsveit norska hersins.
Aukinheldur taka þátt í æfingunni tvær B-1B Lancer sprengjuflugvélar, frá herstöð á Azoreyjum, twær bandarískar B-52-H sprengjuflugvélar, F-15 og F-16 orrustuflugvélar bandaríska flughersins, CH-47 Chinook flutningaþyrlur frá þjóðvarðliði New York-ríkis, sjö F-16 orrustuþotur hollenzka flughersins, P3C Orion kafbátaleitarvélar frá Bandaríkjunum, Hollandi og Kanada, AWACS ratsjárflugvélar frá Bandaríkjunum og NATO og norski kafbáturinn Skolpen. Kafbátur hefur ekki verið notaður áður í Norðurvíkingsæfingunum, sem fara fram annað hvert ár.

Norsk sérsveit í hlutverki andstæðingsins

Skothvellir heyrðust öðru hvoru á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun, en alla nóttina höfðu norskir sérsveitarmenn reynt að komast inn á varnarsvæðið og bandarískir varðmenn svarað skotum þeirra, en að sjálfsögðu var aðeins skipzt á púðurskotum. Norska sérsveitin mun einnig ráðast til atlögu við varnarsvæðin við olíustöðina í Helguvík, ratsjárstöðina í Grindavík. Hún mun sömuleiðis leika andstæðinginn er bandarísku varaliðsmennirnir æfa varnir Sogsvirkjunar.
Karl Hanevik, yfirmaður sérsveitarinnar, segir að menn hans séu sérþjálfaðir í að beita óhefðbundnum aðferðum í hernaði og muni nota þær óspart gegn bandarísku "andtæðingunum" hér á landi. Hanevik segir landslag hér vissulega ólíkt því, sem gerist í Noregi og minna af skógi til að fela sig í, en alltaf sé hægt að finna eitthvað til að fela sig á bak við. "Veðrið hjálpar til," segir hann.

Norsk sérsveit í hlutverki andstæðingsins
Norskir sérsveitarmenn í viðbragðsstöðu á Keflavíkurflugvelli í gær

Dale A. Barber ofursti, yfirmaður varaliðssveitar landhersins, segir að menn hans, sem stunda borgaraleg störf meirihluta ársins, líti á æfinguna sem kærkomið tækifæri til æfinga og til að bæta hæfni sína. Hann segir sérstaklega mikilvægt að fá að fást við norsku sveitina; hún sé útlend og beiti öðrum aðferðum en menn hans séu vanir að sjá.
Aðspurðurhvaða ályktanir menn muni draga, fari svo aðnorska sérsveitin hafi betur í viðureininni og nái t.d. Sogsvirkjun á sitt vald, segir Boyington flotaforingi að í æfingum af þessu tagi sigri enginn eða tapi; þær séu fyrst og fremst ætlaðar til þess að menn æfi það, sem þeir hafa lært í hermennsku. "Eigum við ekki að gizka á að okkur muni takast að veja Ísland eitt árið enn?" segit flotaforinginn.

Tímasetningin miðuð við Samvörð og sumarleyfi varaliðsmanna

Varnaræfinguna ber upp á mestu ferðahelgi ársins hér á landi. Aðspurður hvernig á tímasetningunni standi, segis Boyington að í fyrsta lagi hafi orðið að miða hana við almannavarnaæfinguna Samvörð '97, sem fram fór um síðustu helgi. Þeirri æfingu hafi ekki verið hægt að hnika til, en mikið af tækjum, búnaði og mannskap sé samnýtt fyrir báðar æfingarnar. Þá hafi orðið að taka tillit til þess að varaliðsmenn, sem séu aðallega til taks í sumarleyfi sínu, leiki stórt hlutverk í æfingunni. Reynt sé að skipuleggja æfinguna þannig að hún valdi sem minnstum óþægindum fyrir almenning og ferðamenn.

Norðmennirnir eru snjallir að fela sig. Hér sést hlaup á byssu leyniskyttu (neðst) og sjónauki hennar (fyrir miðri mynd) standa upp úr því, sem annars virðist grasbali á Miðnesheiði.